Albert og félagar úr leik

Albert Guðmundsson í æfingaleik með AZ Alkmaar á dögunum.
Albert Guðmundsson í æfingaleik með AZ Alkmaar á dögunum. AFP

Albert Guðmundsson og liðsfélagar hans í hollenska knattspyrnuliðinu AZ Alkmaar eru úr leik í Meistaradeildinni í ár eftir 2:0-tap gegn Dynamo Kiev í Úkraínu í 3. umferð undankeppninnar í dag.

Það voru þeir Gerson Rodrigues og Mykola Shaparenko sem skoruðu mörk Dynamo Kiev í leiknum en Albert var í byrjunarliði AZ Alkmaar og lék fyrstu 58. mínúturnar. Lið AZ fer nú yfir í Evrópudeildina eins og önnur lið sem falla út í undankeppni Meistaradeildarinnar.

Hollenska úrvalsdeildin hófst um síðustu helgi en vegna þátttöku AZ Alkmaar í Meistaradeildinni lék liðið ekki um síðustu helgi.

AZ Alkmaar hefur leik í deildinni á laugardaginn kemur þegar liðið fær Zwolle í heimsókn.

mbl.is