Knattspyrnumaður réðst á stuðningsmann

Toni Leistner
Toni Leistner Ljósmynd/Hamburg

Þýski knattspyrnumaðurinn Toni Leistner hefur beðist afsökunar á að hafa farið upp í stúku og ráðist á stuðningsmann Dynamo Dresden í gærkvöld. Leistner og liðsfélagar hans í Hamburg máttu þola 1:4-tap fyrir Dresden í þýska bikarnum.

Leistner, sem fæddist í Dresden og lék með Dynamo Dresden frá 2010 til 2014, var í viðtali hjá Sky þegar atvikið átti sér stað. Ýtti hann stuðningsmanninum á gólfið, en stuðningsmaðurinn söng níðsöngva um fjölskyldu leikmannsins. 

Þjóðverjinn baðst í dag afsökunar á Instagram. „Ég varð fyrir níði frá stuðningsmönnum uppeldisfélagsins. Venjulega er mér sama hvað er sungið um mig, en þetta var neðanbeltis þar sem söngvarnir voru um fjölskylduna, eiginkonu og dóttur. 

Svona lagað á hins vegar ekki að gerast og ég biðst afsökunar og lofa, sama hvað, að þetta gerist ekki aftur,“ skrifaði Leistner. 

mbl.is