Langt bann fyrir slagsmál

Það sauð allt upp úr í leik PSG og Marseille.
Það sauð allt upp úr í leik PSG og Marseille. AFP

Neymar, sóknarmaður franska knattspyrnufélagsins PSG, var í kvöld úrskurðaður í tveggja leikja bann fyrir að slá mótherja sinn í leik PSG og Marseille í frönsku 1. deildinni á dögunum.

Neymar sló Álvaro Gonzaléz í hnakkann í leik liðanna og fékk að líta rauða spjaldið fyrir athæfið eftir að dómari leiksins hafði horft aftur á atvikið í endursýningu. 

Neymar viðurkenndi brot sitt en sakaði Gonzaléz um kynþáttafordóma í sinn garð og útskýrði þannig viðbrögð sín.

Þá voru þeir Leandro Paredes og Layvin Kurzawa, leikmenn PSG, einnig úrskurðaðir í bann fyrir sinn þátt í átökunum en Paredes fékk tveggja leikja bann og Kurzawa fékk sex leikja bann.

Þeir Jordan Amavi og Dario Benedetto, leikmenn Marseille, voru einnig úrskurðaðir í bann en Benedetto fékk eins leiks bann og Amavi þriggja leikja bann.  

Leiknum lauk með 1:0-sigri Marseille en það var Florian Thauvin sem skoraði sigurmark Marseille á 31. mínútu.

mbl.is