Skrifaði undir þriggja ára samning í Noregi

Valdimar Þór Ingumundarson skrifaði undir þriggja ára samning í Noregi.
Valdimar Þór Ingumundarson skrifaði undir þriggja ára samning í Noregi. Ljósmynd/Strömsgodset

Valdimar Þór Ingumundarson er genginn til liðs við norska knattspyrnufélagið Strömsgodset en þetta staðfesti félagið á samfélagsmiðlum sínum í kvöld.

Valdimar skrifaði undir þriggja ára samning við norska úrvalsdeildarfélagið sem gildir út tímabilið 2023 en hann kemur til félagsins frá uppeldisfélagi sínu Fylki.

Valdimar hefur verið einn besti leikmaður úrvalsdeildarinnar, Pepsi Max-deildarinnar, á þessari leiktíð en Árbæingurinn, sem er 21 árs gamall, skoraði 8 mörk í fjórtán leikjum í úrvalsdeildinni í sumar.

Alls á hann að baki 53 leiki í efstu deild með Fylki þar sem hann hefur skorað 17 mörk. Þá á hann að baki fimm landsleiki með U21-árs landsliði Íslands.

Hjá Strömsgodset hittir hann fyrir fyrrverandi liðsfélaga sinn úr Árbænum, Ara Leifsson, sem gekk til liðs við norska félagið í mars á þessu ári.

Strömsgodet er í tólfta sæti norsku úrvalsdeildarinnar með 20 stig eftir fyrstu sautján leiki sína en alls leika sextán lið í deildinni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert