Þeir hringdu aldrei í mig

Ragnar Sigurðsson í landsleik.
Ragnar Sigurðsson í landsleik. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Ragnar Sigurðsson, landsliðsmaður í knattspyrnu, segir að sitt gamla félag Gautaborg hafi aldrei haft samband við sig áður en hann gekk til liðs við annað fyrrverandi félag sitt, FC København, í byrjun þessa árs.

Ragnar var orðaður við Gautaborg, þar sem hann hóf atvinnuferilinn á sínum tíma, og Göteborgs-Posten ræddi við varnarmanninn í gær og spurði hann um hvort ekki hafi komið til greina að snúa aftur þangað.

„Það hringdi enginn í mig frá Gautaborg,“ svaraði Ragnar og sagði að það hefði vissulega komið  til greina að fara þangað en hann var gríðarlega vinsæll hjá stuðningsfólki félagsins á sínum tíma.

„Það er góð spurning. Þetta eru ólík félög en það er klárt mál að ég hefði hugsað málið vel ef staðan hefði komið upp. En það hringdi enginn og þess vegna kom það aldrei til greina,“ sagði Ragnar við blaðið.

Gautaborg og FC Köbenhavn mætast í 2. umferð Evrópudeildar UEFA í Gautaborg annað kvöld og Ragnar er í leikmannahópnum hjá FCK eftir að hafa setið hjá í fyrstu umferð dönsku úrvalsdeildarinnar um síðustu helgi en Ståle Solbakken sagði þá að Ragnar væri ekki kominn í hundrað prósent æfingu til að spila.

mbl.is