Messi fær skrásett vörumerki

Argentínski knattspyrnumaðurinn Lionel Messi á eitt ár eftir af samningi …
Argentínski knattspyrnumaðurinn Lionel Messi á eitt ár eftir af samningi sínum við Barcelona. AFP

Knattspyrnumaðurinn Lionel Messi á rétt á að skrá nafn sitt sem vörumerki. Að þessari niðurstöðu komst Evrópudómstóllinn í dag. Með því lýkur níu ára baráttu kappans fyrir vörumerkjaskráningunni. Politico greinir frá.

Með dómi Evrópudómstólsins er dómur undirréttar frá árinu 2018 staðfestur, en þar segir að frægð knattspyrnumannsins sé slík að ólíklegt sé að vörumerkinu verði ruglað saman við spænska hjólreiðamerkið Massi.

Messi hefur frá árinu 2011 reynt að fá vörumerki með nafni sínu í stíliseraðri leturgerð skráð sem vörumerki, á svipaðan hátt og önnur helsta knattspyrnustjarna heimsins, Cristiano Ronaldo, hefur skráð vörumerkið CR7.

Áður en málið komst til kasta dómstóla hafði Hugverkastofnun Evrópusambandsins (EUIPO) úrskurðað að nöfn knattspyrnumannsins og hjólreiðamerkisins væru of lík

Messi, sem er 33 ára gamall, var tekjuhæsti knattspyrnumaður heims á síðasta ári en tekjur hans námu um 17 milljörðum króna. Þar af námu Laun Messi hjá Barcelona 12,4 milljörðum, en tekjur vegna auglýsinga og sölu á varningi 4,6 milljörðum króna.

mbl.is