Anna samherji Berglindar í Frakklandi

Anna Björk Kristjánsdóttir
Anna Björk Kristjánsdóttir mbl.is/Golli

Anna Björk Kristjánsdóttir, landsliðskona í knattspyrnu, er á leið til Frakklands þar sem 1. deildarliðið Le Havre hefur keypt hana af Selfyssingum. Sunnlenska.is skýrir frá þessu.

„Ég er virkilega spennt fyrir að komast í svona sterka deild og tel það algjör forréttindi að fá að keppa á móti nokkrum af bestu liðum og leikmönnum í heimi. Þetta er spennandi áskorun og það hefur alltaf verið draumur minn að spila og búa í Frakklandi,“ segir Anna Björk í samtali við sunnlenska.is.

Le Havre er nýliði í frönsku 1. deildinni, efstu deild Frakklands, og félagið keypti á dögunum Berglindi Björgu Þorvaldsdóttur frá Breiðabliki. Þær voru áður samherjar hjá PSV í Hollandi. Liðið hefur leikið tvo leiki á tímabilinu og er með þrjú stig.

Þar með hafa tveir leikmenn yfirgefið Selfossliðið á nokkrum dögum en Hólmfríður Magnúsdóttir gekk í vikunni til liðs við Avaldsnes í Noregi.

Nú leika þrjár íslenskar landsliðskonur í frönsku 1. deildinni en Sara Björk Gunnarsdóttir gekk til liðs við Evrópumeistarana Lyon í sumar og  vann Meistaradeildina með liðinu í síðasta mánuði.

Anna Björk hefur áður leikið með PSV í Hollandi og sænsku liðunum Limhamn Bunkeflo og Örebro en hún lék með Stjörnunni í átta ár áður en hún fór fyrst í atvinnumennsku.

mbl.is