Bjartsýnn á gott tímabil

Alfreð Finnbogason hefur leikið með Augsburg í tæp fimm ár.
Alfreð Finnbogason hefur leikið með Augsburg í tæp fimm ár. AFP

Alfreð Finnbogason landsliðsmaður í knattspyrnu kveðst vera mjög bjartsýnn fyrir komandi tímabil með Augsburg í þýska fótboltanum en lið hans sækir Union Berlín heim í fyrstu umferð Bundesligunnar á morgun.

Alfreð missti mikið úr vegna meiðsla á síðasta tímabili en sagði á fréttamannafundi í dag að þá hefði hann ekki náð undirbúningstímabilinu. Núna væri staðan allt önnur. „Ég geri allt sem í mínu valdi stendur til þess að spila eins mikið á þessu tímabili og ég mögulega get og ég er afar ánægður með form mitt í dag.

Nú erum við líka mjög vel settir með sóknarmenn, eigum gott undirbúningstímabil að baki, og það er samkeppni um allar stöður í liðinu. Ég er afar bjartsýnn á að við eigum gott tímabil fyrir höndum," sagði Alfreð á fundinum en hann er að hefja sitt fimmta heila tímabil með þýska liðinu eftir að hafa komið þangað í ársbyrjun 2016.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert