Higuaín til liðs við Beckham

Gonzalo Higuaín er á leið til Miami.
Gonzalo Higuaín er á leið til Miami. AFP

Bandaríska knattspyrnufélagið Inter Miami tilkynnti í dag að það hefði samið við Argentínumanninn reynda Gonzalo Higuaín sem hefur verið í röðum Juventus á Ítalíu undanfarin ár.

Inter Miami er í eigu Davids Beckhams, fyrrverandi landsliðsmanns Englands, og viðskiptafélaga hans og leikur nú í fyrsta skipti í bandarísku MLS-deildinni en félagið var stofnað fyrir tveimur árum. Liðið er neðst í Austurdeild MLS með aðeins tvo sigurleiki í fyrstu ellefu umferðunum.

Higuaín er 32 ára gamall og hefur leikið í Evrópu frá 2007 við  góðan orðstír, með Real Madrid, Napoli, Juventus, AC Milan og Chelsea en hann hefur skorað 237 mörk í efstu deildum Spánar, Ítalíu og Englands á þessum tíma. Þá skoraði hann 31 mark í 75 landsleikjum fyrir Argentínu á árunum 2009 til 2018.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert