Við vissum ekki hvort Sveindís myndi spila

Sveindís Jane Jónsdóttir undirbýr innkast í leiknum í kvöld.
Sveindís Jane Jónsdóttir undirbýr innkast í leiknum í kvöld. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Peter Gerhardsson landsliðsþjálfari Svía sagði eftir jafnteflið gegn Íslandi, 1:1, í undankeppni EM kvenna í fótbolta á Laugardalsvellinum að Sveindís Jane Jónsdóttir hefði slegið sitt lið út af laginu í kvöld.

Hann sagðist eftir leikinn ekki hafa verið viss um hvort hún yrði í byrjunarliðinu í kvöld.

„Hún spilaði gegn Lettlandi en þar sem hún er ung vissum við ekki hvort hún myndi byrja gegn okkur. Hún er virkilega góður leikmaður, mjög hörð og gerði meira en að taka þessi löngu innköst. Ég veit reyndar ekki hvað hún eyddi mörgum mínútum í þessi innköst, en það er eins og það er, það verða tafir á öllum leikjum," sagði Gerhardsson við fréttamenn.

Caroline Seger fyrirliði Svía tók í sama streng.

„Löng innköst eru íslenskt vörumerki en við vissum ekki að þessi leikmaður gæti kastað svona langt. Ég held hinsvegar að við höfum varist því vel þangað til þetta mark kom. Það var að sjálfsögðu óheppilegt og leiðinlegt að fá á sig svona mark," sagði Seger.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert