Á leið í læknisskoðun hjá Atlético Madrid

Luis Suárez, framherji knattspyrnuliðs Barcelona á Spáni, er að ganga til liðs við Atlético Madrid en síðarnefnda félagið tilkynnti á samfélagsmiðlum sínum í kvöld að það hefði náð samkomulagi við Barcelona um kaupverðið á framherjanum.

Suárez er 33 ara gamall en hann mun ganast undir læknisskoðun hjá spænska félaginu á morgun og ef allt gengur að óskum þar, skrifa undir samning við Atlético Madrid. Kaupverðið er 6 milljónir evra.

Félagaskiptin hafa legið í loftinu í þónokkurn tíma en þegar Ronald Koeman tók við stjórnartaumunum hjá Barcelona gerði hann það ljóst strax á fyrsta degi að hann hefði engan áhuga á því að nota Suárez.

Suárez á eitt ár eftir af samningi sínum við Barcelona en hann þarf að taka á sig 50% launalækkun hjá Atlético Madrid.

Framherjinn frá Úrúgvæ hefur leikið með Barcelona frá árinu 2014 en hann hefur fjórum sinnum orðið Spánarmeistari með liðinu, fjórum sinnum bikarmeistari og einu sinni Evrópumeistari.

Þá hefur hann skorað 198 mörk í 283 leikjum fyrir félagið í öllum keppnum frá 2014.

Luis Suárez er að ganga til liðs við Atlético Madrid.
Luis Suárez er að ganga til liðs við Atlético Madrid. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert