Fimm skiptingar leyfðar í landsleikjunum

Þrjár skiptingar voru leyfðar þegar Ísland mætti Englandi í september …
Þrjár skiptingar voru leyfðar þegar Ísland mætti Englandi í september en þær verða fimm í næstu landsleikjum. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Knattspyrnusamband Evrópu, UEFA, tilkynnti í dag að fimm innáskiptingar yrðu leyfðar hjá hverju liði í mótum á vegum sambandsins á keppnistímabilinu 2020-21, í stað hefðbundinna þriggja skiptinga, og breytingarnar taka strax gildi.

Á þessu ári hefur verið heimilt að nota fimm skiptingar á lið í leikjum, þar sem hvert knattspyrnusamband um sig hefur tekið endanlega ákvörðun um það en þetta er vegna hins langa hlés sem varð á fótboltanum fyrr á þessu ári vegna útbreiðslu kórónuveirunnar. KSÍ nýtti sér m.a. þessa heimild fyrir Íslandsmótið 2020.

Reglan tekur strax gildi í þeim leikjum sem eftir eru í Þjóðadeild UEFA, og í umspilinu fyrir EM karla og kvenna. Hún verður því m.a. í gildi í landsleikjum Íslands í októbermánuði en þá leikur karlalandsliðið við Rúmeníu í umspilinu fyrir EM og við Dani og Belga í Þjóðadeildinni, og kvennalandsliðið mætir Svíum í undankeppni EM.

Breytingin nær líka yfir mót félagsliðanna, Meistaradeildir karla og kvenna og Evrópudeild karla.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert