Fyrirheitna landið

Hólmar Örn Eyjólfsson
Hólmar Örn Eyjólfsson mbl.is/Eggert Jóhannesson

Fyrirheitna landið hjá íslensku knattspyrnufólki þessa dagana er Noregur. Jón Guðni Fjóluson, Hólmfríður Magnúsdóttir, Valdimar Þór Ingimundarson, Hólmar Örn Eyjólfsson, Viðar Örn Kjartansson og Björn Bergmann Sigurðarson hafa öll gengið til liðs við norsk félög síðustu daga og vikur.

Þar með eru tuttugu Íslendingar á mála í atvinnumennsku í norska fótboltanum, og einn þjálfari að auki. Fimmtán leika í úrvalsdeild karla, ásamt þjálfaranum, þrír í B-deild karla og tvær í úrvalsdeild kvenna.

Noregur hefur um árabil verið fyrsta stoppistöð hjá mörgum Íslendingum sem hafa verið að hefja atvinnuferilinn. Í þessari síðustu bylgju er hinsvegar aðeins einn í þeirri stöðu, Fylkismaðurinn Valdimar sem lék sinn fyrsta leik með Óslóarliðinu Strömsgodset um síðustu helgi.

Viðar, Björn, Hólmar og Hólmfríður eiga það sameiginlegt að snúa aftur til síns gamla félags í Noregi. Viðar varð markakóngur úrvalsdeildarinnar með Vålerenga 2014 og mætti aftur með látum á dögunum þegar hann skoraði þrennu í fyrsta leiknum. Björn er kominn aftur til Lilleström þar sem hann hóf atvinnuferilinn, Hólmar leikur á ný með Rosenborg þar sem hann varð tvívegis norskur meistari og Hólmfríður er komin á ný til Avaldsnes þar sem hún var einn besti leikmaðurinn í norska fótboltanum um fimm ára skeið.

Metjöfnun þegar Jón spilar

Jón Guðni hefur aftur á móti ekki leikið í Noregi áður á sínum níu árum í atvinnumennsku en hann er fimmtándi Íslendingurinn sem klæðist búningi Brann frá Bergen.

Þegar Jón Guðni leikur fyrsta leikinn með Brann jafnar félagið metin við Lilleström sem mesta Íslendingafélagið í úrvalsdeild karla. Fimmtán íslenskir leikmenn hafa spilað með Lilleström í deildinni.

Fréttaskýringuna í heild sinni er að finna í Morgunblaðinu í dag. 

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert