Þrír Íslendingar komnir í Evrópudeildarumspil

Arnór Ingvi Traustason og Hólmar Örn Eyjólfsson á landsliðsæfingu.
Arnór Ingvi Traustason og Hólmar Örn Eyjólfsson á landsliðsæfingu. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Ragnar Sigurðsson, Hólmar Örn Eyjólfsson og Arnór Ingvi Traustason, landsliðsmenn í knattspyrnu, eru komnir með liðum sínum í umspil um sæti í Evrópudeildinni í fótbolta eftir góða sigra í þriðju umferð keppninnar í dag.

Ragnar Sigurðsson og félagar í FC Köbenhavn sigruðu Piast Gliwice frá Póllandi, 3:0, á heimavelli sínum, Parken, í kvöld. Ragnar lék fyrstu 67 mínúturnar með FCK en Kamil Wilczek, Jonas Wind og Pep Biel skoruðu mörkin fyrir danska liðið.

Rosenborg lagði Alanyaspor frá Tyrklandi að velli, 1:0, í Þrándheimi þar sem Anders Konradsen skorað sigurmarkið á 59. mínútu. Hann fékk rauða spjaldið sjö mínútum síðar en það kom ekki að sök og einn Tyrkjanna fauk síðan einnig af velli undir lokin. Hólmar lék allan leikinn í vörn Rosenborg.

Malmö fór ótrúlega létt með króatíska liðið Lokomotiva Zagreb á heimavelli sínum og sigraði 5:0. Arnór Ingvi var varamaður og kom ekkert við sögu í leiknum.

Ísak Óli Ólafsson var varamaður hjá danska liðinu SönderjyskE sem tapaði fyrir Viktoria Plzen í Tékklandi, 3:0, og er úr leik.

Í umspilinu er einn leikur, sem fer fram 1. október, og Íslendingaliðin þrjú verða öll á heimavelli. FCK á mestu möguleikana, mætir Rijeka frá Króatíu eða Kolos Kovalivka frá Úkraínu. Rosenborg fær hollenska stórliðið PSV Eindhoven í heimsókn til Þrándheims og Malmö tekur á móti Granada frá Spáni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert