Ánægður með móttökurnar og fínt að hafa æskufélaga í liðinu

Valdimar Þór Ingimundarson í leik með Fylki.
Valdimar Þór Ingimundarson í leik með Fylki. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Valdimar Þór Ingimundarson, leikmaður íslenska 21-árs landsliðsins í knattspyrnu sem er nýkominn til norska úrvalsdeildarfélagsins Strömsgodset frá Fylki, segir að móttökurnar hjá félaginu hafi verið frábærar og það hafi líka verið dýrmætt að hitta þar fyrir æskufélaga sinn.

Hann æfði með liðinu í fyrsta skipti á fimmtudaginn í síðustu viku og þreytti frumraun sína í atvinnumennsku þremur dögum síðar þegar hann lék síðasta hálftímann með liðinu gegn Sandefjord, í markalausu jafntefli. Valdimar kvaddi Fylki á dögunum sem markahæsti leikmaður liðsins og efsti maður í M-einkunnagjöf Morgunblaðsins í Pepsi Max-deild karla í sumar.

„Það var gott að komast af stað. Mér fannst við stjórna leiknum í seinni hálfleik og hefðum átt að skora mörk en það tekst ekki alltaf. Hvað sjálfan mig varðar fannst mér þetta ganga þokkalega, hvorki illa né sérstaklega vel. Ég á meira inni," segir Valdimar í viðtali á heimasíðu Strömsgodset sem er frá borginni Drammen, vestan við Ósló.

„Á fyrstu æfingunum hjá mér var farið í gegnum grunnatriðin og ég komst inn í það helsta fyrir leikinn en ég þarf meira til áður en ég verð 100 prósent með allt á hreinu. Það tekur sinn tíma en mér líður betur og betur með hverjum deginum sem líður. Þjálfarinn er frábær með mikinn metnað fyrir því að þróa liðið, skilaboðin eru auðskiljanleg og það gerir mér auðveldara að laga mig að leikstíl liðsins," segir Valdimar ennfremur.

Hann er afar ánægður með byrjunina og móttökurnar. „Ég er virkilega ánægður með að vera kominn hingað. Þetta er fínt félag og fullt af góðu fólki. Ég fann að ég var virkilega velkominn frá fyrstu mínútu og það var gott að fá svona móttökur," segir Árbæingurinn en góður kunningi hans úr Fylki, Ari Leifsson, er einnig leikmaður Strömsgodset og fram kemur að þeir félagar muni búa saman næstu mánuðina í Drammen.

„Við Ari höfum þekkst síðan við vorum smástrákar og spiluðum ábyggilega saman í tíu ár, svo við þekkjumst afar vel og gerum góðir vinir. Það er stórfínt að hafa hann hérna. Hann hefur hjálpað mér að komast fljótt inn í hlutina."

Fyrsti heimaleikurinn er á morgun þegar Strömsgodset fær Sarpsborg í heimsókn á Marienlyst-leikvanginn sem rúmar tæplega níu þúsund áhorfendur en nú mega aðeins 200 mæta á leikina vegna sóttvarna.

„Ég hlakka mikið til að spila hérna. Þetta er flottur völlur og það er alltaf gaman að spila á heimavelli. Við hlökkum mikið til og vonandi náum við í þrjú stig," segir Valdimar Þór Ingimundarson en lið hans er í 12. sæti af sextán liðum í deildinni, sex stigum fyrir ofan umspilssæti.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert