Aron tryggði Stokkhólmsliðinu útisigur - Arnór í fínni stöðu

Aron Jóhannsson heldur áfram að skora.
Aron Jóhannsson heldur áfram að skora. Ljósmynd/Hammarby

Aron Jóhannsson var áfram á skotskónum fyrir Hammarby frá Stokkhólmi í dag þegar lið hans lagði Falkenberg að velli, 3:1, á útivelli í sænsku úrvalsdeildinni í knattspyrnu.

Aron kom Hammarby yfir, 2:1, á 66. mínútu leiksins og gulltryggði síðan sigurinn með sínu öðru marki í uppbótartíma leiksins. Hammarby lyfti sér upp í sjöunda sæti deildarinnar með 32 stig. Aron hefur nú skorað átta mörk í síðustu níu leikjum Hammarby í deildinni.

Arnór Ingvi Traustason og  félagar í Malmö eru á hraðleið í átt að sænska meistaratitlinum eftir sannfærandi sigur á Häcken, 3.0, í uppgjöri tveggja efstu liðanna í dag. Arnór lék fram á 89. mínútu í liði Malmö sem er nú komið með 44 stig og er níu stigum á undan Häcken og Elfsborg sem eru með 35 stig. Norrköping er með 33 stig og getur komist í annað sætið síðar í dag. Oskar Tor Sverrisson, sem fékk sitt fyrsta tækifæri með íslenska landsliðinu í janúar, lék allan leikinn sem vinstri bakvörður hjá Häcken og var þar með í fyrsta sinn í byrjunarliðinu í ár.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert