Krefjast afsökunarbeiðni frá styrktaraðilanum fyrir ósæmilegt tíst

Joao Felix skorar eitt marka Atlético Madrid gegn Granada í …
Joao Felix skorar eitt marka Atlético Madrid gegn Granada í gær. AFP

Forráðamenn spænska knattspyrnufélagsins Granada krefjast þess að aðalstyrktaraðili félagsins, veðmálafyrirtækið Winamax Deportes, biðjist opinberlega afsökunar á framferði sínu eftir að Granada steinlá fyrir Atlético Madrid, 6:1, í spænsku 1. deildinni í gær.

Granada byrjaði tímabilið vel og vann fyrstu tvo leikina en fékk svo þennan skell. Liðið er á leið til Svíþjóðar þar sem það mætir Arnóri Ingva Traustasyni og samherjum í Malmö í umspilsleik um sæti í riðlakeppni Evrópudeildarinnar á fimmtudagskvöldið.

Eftir leikinn við Atlético birti Winamax Deportes á Twitter-síðu sinni teiknaða mynd sem átti að vera „hitakort“ sem sýndi hreyfingar Joao Felix, framherja Atlético, í leiknum. Þar voru hreyfingar leikmannsins teiknaðar upp sem getnaðarlimur en vörn Granada eins og nakinn afturendi.

Fjölmargir notendur Twitter náðu að dreifa myndinni áður en Winamax Deportes fjarlægði hana af síðunni.

Granadamenn skrifuðu m.a. á sína Twitter-síðu: „Granada CF krefst opinberrar afsökunar og tafarlausrar leiðréttingar frá Winamax Deportes fyrir þeirra ósæmilega tíst sem gerði lítið úr félaginu okkar og  stuðningsmönnum. Við áskiljum okkur rétt til að kæra atvikið, til að vernda hagsmuni okkar 89 ára gamla félags.

Fotbollskanalen í Svíþjóð birti þessa mynd á vef sínum:

 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert