Íslendingalið í riðlakeppni Meistaradeildarinnar

Ögmundur Kristinsson er leikmaður Olympiacos.
Ögmundur Kristinsson er leikmaður Olympiacos. Ljósmynd/@OlympiakosFr

Þrjú lið tryggðu sér í kvöld sæti í riðlakeppni Meistaradeildar Evrópu í fótbolta og var gríska liðið Olympiacos eitt þeirra en með því landsliðsmarkvörðurinn Ögmundur Kristinsson. 

Olympiacos vann fyrri leik sinn við Omonia Nicosia frá Kýpur á heimavelli 2:0 og nægði því markalaust jafntefli á Kýpur í kvöld til að fara áfram. Ögmundur Kristinsson var ekki í leikmannahópi Olympiacos en hann kom til félagsins á dögunum frá Larissa. 

Úkraínska liðið Dynamo Kíev var sterkara gegn Gent frá Belgíu og vann 3:0-heimasigur í kvöld. Vitalii Buialskyi, Carlos De Pena og Gerson Rodrigues skoruðu mörk Dynamo Kíev sem unnu fyrri leikinn 2:1 og einvígið 5:1. 

Þá er Ferencváros frá Ungverjalandi sömuleiðis komið í riðlakeppnina eftir markalaust jafntefli við Molde frá Noregi. Fór fyrri leikurinn í Noregi 3:3 og fer Ferencváros því áfram með fleiri mörkum skoruðum á útivelli. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert