Mikael í Meistaradeildina - Sverrir í Evrópudeildina

Mikael Anderson leikur með Midtjylland.
Mikael Anderson leikur með Midtjylland. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Mikael Anderson landsliðsmaður í knattspyrnu er kominn í riðlakeppni Meistaradeildar Evrópu með liði sínu, danska meistaraliðinu Midtjylland, sem  vann í kvöld glæsilegan heimasigur á Slavia Prag frá Tékklandi, 4:1, í seinni umspilsleik liðanna.

Fyrri leikurinn í Tékklandi endaði 0:0 og útlitið fyrir Slavia var gott í byrjun þegar Peter Olayanka skoraði. Þar með þurfti Midtjylland minnst tvö mörk til að fara áfram.

Það var ekki fyrr en á lokakafla leiksins sem allt fór að gerast. Sory Kaba jafnaði um miðjan síðari hálfleik, 1:1, og Slavia var enn í góðum málum. Alexander Scholz, fyrrverandi leikmaður Stjörnunnar, kom Midtjylland yfir, 2:1, á 84. mínútu og þeir Frank Onyeka og Anders Dreyer bættu tveimur mörkum við í lokin. Mikael var á meðal varamanna Midtjylland í kvöld og kom inn á skömmu fyrir leikslok.

Sverrir Ingi Ingason komst hinsvegar ekki áfram með PAOK frá Grikklandi sem tapaði 1:2 á heimavelli fyrir Krasnodar frá Rússlandi í kvöld. Rússarnir höfðu unnið fyrri leikinn með sömu markatölu. Mörkin komu á fimm mínútna kafla seint í leiknum, eftir að Omar El Khaddouri jafnaði fyrir PAOK á 77. mínútu, 1:1, var allt galopið en það entist bara í mínútu, Remy Cabella svaraði fyrir Krasnodar og þar með hefði PAOK þurft þrjú mörk á lokakaflanum til að fara áfram.

Sverrir Ingi lék allan leikinn í vörn PAOK sem nú fer í riðlakeppni Evrópudeildarinnar í staðinn.

Auk Krasnodar og Midtjylland komst Salzburg frá Austurríki í riðlakeppnina í kvöld með því að sigra Maccabi Tel Aviv 3:1. Fyrri leikur liðanna endaði 0:0.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert