Heiður að vinna meðan Messi og Ronaldo eru enn í fremstu röð

Robert Lewandowski með verðlaunagripinn á milli samherja sinna hjá Bayern …
Robert Lewandowski með verðlaunagripinn á milli samherja sinna hjá Bayern en Manuel Neuer var kjörinn besti markvörður Meistaradeildarinnar og Joshua Kimmich besti varnarmaður hennar. Ljósmynd/Fernando Santamaria Ortiz

„Það er gríðarlegur heiður að hljóta þennan titil á meðan Lionel Messi og Cristiano Ronaldo eru enn að spila og eru enn í fremstu röð," sagði pólski framherjinn Robert Lewandowski í einkaviðtali við fréttamenn frá Samtökum evrópskra íþróttafjölmiðla, ESM, eftir að hann var útnefndur knattspyrnumaður ársins í Evrópu 2019-20 á verðlaunahátíð UEFA og ESM í Sviss í dag.

Hann svaraði á þessa leið þegar hann spurður hvort hann hefði, 32 ára gamall, gert sér einhverjar vonir um að geta unnið titil á borð við þennan í samkeppni við menn eins og Messi og Ronaldo sem hefðu nánast einokað hann um árabil. „Ég er stoltur af því að hafa átt svona gott tímabil núna," sagði Pólverjinn sem varð Evrópumeistari og Þýskalandsmeistari með Bayern München og markakóngur á báðum vígstöðvum.

Hvernig farið þið hjá Bayern að því að fylgja eftir svona frábæru tímabili?

„Við erum á toppnum núna og allir vilja vinna okkur. Við þurfum að vera búnir undir það en við erum hungraðir í að vinna fleiri titla. Við erum með ungt lið sem getur þroskast meira og við viljum meira. Við erum tilbúnir í slaginn um næstu titla."

Hvert var stærsta augnablikið á síðasta tímabili?

„Það er kannski auðveldast að benda á titlana og þegar við unnum þá en fyrir mig var líka magnað að skora fjögur mörk gegn Rauðu stjörnunni í riðlakeppninni, frammistaðan í leikjunum gegn Tottenham og Barcelona og svo sá tími sem við vorum í Portúgal í úrslitakeppninni í Meistaradeildinni, sem var mjög góður.

Síðasta tímabil var mjög einkennilegt vegna útbreiðslu kórónuveirunnar. Hvernig var að upplifa það og hvernig sérðu framhaldið?

„Þetta hefur verið erfitt fyrir alla heimsbyggðina. Við hjá Bayern gerðum okkar besta til að halda okkur í formi og tókst það mjög vel, og vorum afar ánægðir þegar við komumst aftur á völlinn og gátum farið að spila leiki á ný. Vonandi verður lífið fljótlega aftur eins og það var, þetta er allt að koma, smám saman."

Hvernig er að vera fyrsti sigurvegarinn frá Póllandi? Stjörnur eins og Deyna og Lato náðu aldrei að vinna svona titil.

„Ég er gríðarlega stoltur fyrir hönd Pólverja og það er mjög sérstakt fyrir okkur sem þjóð að eiga einhvern á þessu stóra sviði. En fótboltinn er fyrst og fremst liðsíþrótt og ég vil þakka þjálfurum og samherjum fyrir að hafa náð þessum titli."

Rétt eins og Lionel Messi ertu sigursæll með félagsliði en gengur ekki eins vel að vinna titla með landsliði. Hvernig er það?

„Ég reyni að gera mitt besta en sem landsliðsmaður Póllands verður maður alltaf að vera raunsær. Fyrir pólska landsliðið er aðalmálið að gera Pólverja stolta af sínu liði. Við gerum okkar besta í hverjum leik, það er aðalatriðið," sagði Robert Lewandowski. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert