Pernille Harder sú besta í Evrópu

Pernille Harder er knattspyrnukona ársins í Evrópu.
Pernille Harder er knattspyrnukona ársins í Evrópu. AFP

Pernille Harder frá Danmörku var í dag útnefnd knattspyrnukona ársins í Evrópu, tímabilið 2019-20, í verðlaunahófi UEFA og Samtaka evrópskra íþróttafjölmiðla, ESM, í Sviss.

Harder hefur undanfarin ár leikið með þýska liðinu Wolfsburg og varð með því bæði þýskur meistari og bikarmeistari og fór með því í úrslitaleikinn í Meistaradeild Evrópu í sumar. Eftir það gekk hún til liðs við enska félagið Chelsea.

Hún hafði betur í baráttu við Englendinginn Lucy Bronze og Frakkann Wendie Lenard, leikmenn Lyon í Frakklandi, sem voru í öðru og þriðja sæti í kjörinu.

Jean-Luc Vasseur, þjálfari Evrópu- og Frakklandsmeistara Lyon, varð fyrir valinu sem þjálfari ársins í Meistaradeild kvenna 2019-20 en niðurstaðan í því kjöri var tilkynnt rétt áður en knattspyrnukona ársins var heiðruð.

Jean-Luc Vasseur þjálfar hið ósigrandi lið Lyon.
Jean-Luc Vasseur þjálfar hið ósigrandi lið Lyon. AFP
mbl.is