Alfons í sóttkví og missir af toppslagnum

Alfons Sampsted.
Alfons Sampsted. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Alfons Sampsted, fyrirliði 21-árs landsliðsins í knattspyrnu, missir af toppslag norsku úrvalsdeildarinnar um helgina með Bodö/Glimt gegn Molde þar sem hann er kominn í sóttkví.

Hann er því á sama báti og margir aðrir leikmenn 21-árs liðsins sem lék í Lúxemborg á þriðjudaginn eftir að markvörður liðsins Elías Rafn Ólafsson, leikmaður Fredericia í Danmörku, greindist með kórónuveirusmit þegar hann sneri aftur til Danmerkur eftir leikinn.

Alfons kom til Bodö/Glimt fyrir þetta tímabil frá Helsingborg í Svíþjóð og hefur tekið þátt í einstakri sigurgöngu liðsins sem er nálægt sínum fyrsta Noregsmeistaratitli í sögunni. Bodö/Glimt er með 18 stiga forskot á næsta lið, Rosenborg, þegar 20 umferðir af 30 hafa verið leiknar, og er nítján stigum á undan ríkjandi meisturum Molde, sem verður á heimavelli í viðureign liðanna annað kvöld.

Alfons, sem setti nýtt leikjamet með 21-árs landsliðinu á þriðjudaginn, hefur fest sig í sessi sem hægri bakvörður hjá Bodö/Glimt og verið í byrjunarliði í öllum 20 leikjunum til þessa. Þetta verður því fyrsti leikurinn sem hann missir af.

„Þetta er rétt, hann er í sóttkví. Þegar Alfons kom aftur heim fór hann í skimun. Þar sem hann reyndist neikvæður kom hann inn í hópinn, en á sömu stundu og við fengum upplýsingar um að einhver úr þessu 21-árs landsliði hefði greinst með veiruna var hann sendur heim," sagði Aasmund Björkan íþróttastjóri Bodö/Glimt við VG í dag.

mbl.is