Heldur áfram að raða inn mörkum

Elías Már Ómarsson fagnar marki.
Elías Már Ómarsson fagnar marki. Ljósmynd/Excelsior

Gott gengi Elíasar Más Ómarssonar fyrir framan mark andstæðinganna hélt áfram í kvöld er hann skoraði seinna mark Excelsior í 2:0-sigri á heimavelli gegn Maastricht. 

Er Elías með níu mörk í átta leikjum í hollensku B-deildinni á leiktíðinni til þessa og 18 mörk í síðustu 16 leikjum alls, en hann var einnig sterkur undir lok síðustu leiktíðar. 

Excelsior er í áttunda sæti með tíu stig eftir átta leiki, en sæti 3-8 gefa þátttökurétt í umspili um sæti í efstu deild. NAC Breda er í toppsætinu með 18 stig. 

Þá lék Kristófer Ingi Kristinsson fyrstu 62 mínúturnar fyrir varalið PSV Eindhoven í 1:5-tapi fyrir Volendam á útivelli. PSV-liðið er í 12. sæti með níu stig. 

mbl.is