Þetta er bakslag fyrir Alfreð

Alfreð Finnbogason skorar í landsleiknum við Rúmena á dögunum en …
Alfreð Finnbogason skorar í landsleiknum við Rúmena á dögunum en markið var dæmt af. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Alfreð Finnbogason missir af leik Augsburg gegn RB Leipzig í þýsku 1. deildinni í knattspyrnu á morgun vegna meiðslanna sem hann varð fyrir snemma leiks gegn Dönum síðasta sunnudagskvöld.

Alfreð varð þá fyrir meiðslum í læri þegar hann var nærri því búinn að koma Íslandi yfir á 11. mínútu leiksins og þurfti að fara af velli.

„Þetta er synd, hann var kominn á mjög gott skrið. Þetta er að sjálfsögðu bakslag fyrir hann," sagði Heiko Herrlich knattspyrnustjóri Augsburg á fréttamannafundi liðsins í dag.

Augsburg hefur ekki byrjað jafnvel í deildinni og nú en liðið er með 7 stig eftir fyrstu þrjá leikina og er jafnt Leipzig og Eintracht Frankfurt í toppsætum deildarinnar, stigi ofar en Evrópumeistarar Bayern München, Dortmund, Hoffenheim og Werder Bremen. 

Alfreð missti mikið úr vegna meiðsla á síðasta tímabili en hafði komið inná sem varamaður í fyrstu þremur leikjum Augsburg í haust.

mbl.is