Erum á leiðinni á hörmulegan völl

Arnór Ingvi Traustason í leik Íslands og Rúmeníu á dögunum.
Arnór Ingvi Traustason í leik Íslands og Rúmeníu á dögunum. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Arnór Ingvi Traustason landsliðsmaður í knattspyrnu segir að stórleikur umferðarinnar í sænska fótboltanum þegar hann og liðsfélagar hans heimsækja Djurgården til Stokkhólms á morgun fari fram við mjög slæmar aðstæður.

„Frá mínum sjónarhóli er þessi völlur hörmulegur, með lélegu gervigrasi. Það eru fjölmargir gervigrasvellir sem eru betri en þessi á Tele2-leikvanginum, að mínu mati," sagði Arnór í viðtali við netmiðilinn Fotbollskanalen í dag.

„En það þýðir ekkert að væla yfir því, við verðum bara að standa okkur á þessum velli. Þeir skipta ekki um gras þó einhverjir séu að kvarta. En miðað við okkar form eigum við að sækja þrjú stig þangað. Þetta verður erfiður leikur, venjulegur fótboltaleikur þó völlurinn sé erfiður en það skiptir ekki öllu máli þó þeir séu meistarar," sagði Arnór.

Djurgården er ríkjandi sænskur meistari en er nú í sjöunda sæti deildarinnar. Arnór og félagar standa hinsvegar vel að vígi á toppnum þar sem þeir eru með níu stiga forskot á Häcken þegar liðin eiga sjö til átta leiki eftir.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert