Lagði upp í jafntefli toppliðsins

Willum Þór Willumsson í leik með BATE Borisov.
Willum Þór Willumsson í leik með BATE Borisov. Ljósmynd/BATE Borisov

Topplið BATE Borisov og Isloch Minsk skildu jöfn, 2:2,  í efstu deild Hvíta-Rússlands í fótbolta í dag á heimavelli síðarnefnda liðsins.

Willum Þór Willumsson var í byrjunarliði BATE, lék allan leikinn, og lagði upp fyrra mark liðsins á 20. mínútu er Maksim Skavysh jafnaði í 1:1. Willum átti þá skot sem var varið en Skavysh fylgdi á eftir.

BATE er með 50 stig eftir 26 leiki, þremur stigum á undan Shakhter og Neman Grodno í öðru og þriðja sæti. 

mbl.is