Lagði upp mark í grannaslag - Kjartan nýtti ekki vítaspyrnu

Jón Dagur Þorsteinsson lagði upp mark í dag.
Jón Dagur Þorsteinsson lagði upp mark í dag. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Jón Dagur Þorsteinsson, landsliðsmaður í knattspyrnu, og samherjar hans í AGF frá Árósum eru áfram ósigraðir í dönsku úrvalsdeildinni eftir öruggan heimasigur í grannaslag gegn Horsens í dag, 3:0.

Jón Dagur lagði upp fyrsta mark AGF og spilaði fyrstu 80 mínútur leiksins. AGF er með 11 stig eftir fimm leiki og í öðru sæti, stigi á eftir Bröndby sem hefur unnið fyrstu fjóra leiki sína og mætir SönderjyskE á útivelli í dag.

Kjartan Henry Finnbogason kom inn á sem varamaður hjá Horsens á 57. mínútu og í uppbótartíma tók hann vítaspyrnu en skaut framhjá marki AGF. Horsens situr eftir á botni deildarinnar með eitt stig.

Ágúst Eðvald Hlynsson er nýkominn til Horsens frá Víkingi en hann var ekki í hópnum í dag, enda einn margra leikmanna 21-árs landsliðsins sem þurftu að fara í sóttkví eftir leikinn í Lúxemborg síðasta þriðjudag.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert