Fyrsti sigur Al-Arabi var dramatískur

Aron Einar Gunnarsson lék allan leikinn með Al-Arabi.
Aron Einar Gunnarsson lék allan leikinn með Al-Arabi. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Aron Einar Gunnarsson og félagar í Al-Arabi unnu í dag sinn fyrsta leik í katörsku úrvalsdeildinni í knattspyrnu á þessu tímabili þegar þeir mættu Umm-Salal á heimavelli.

Leiknum lauk með 2:1-sigri Al-Arabi en Aron Einar lék allan leikinn á miðsvæðinu.

Abdulaziz Al-Ansari kom Al-Arabi yfir undir lok fyrri hálfleiks en Abdennour Belhocini jafnaði metin fyrir Umm-Salal á 68. mínútu.

Það var svo Mehrdad Mohammadi sem tryggði Al-Arabi sigur með marki í uppbótartíma og þar við sat.

Þetta var fyrsti sigur Al-Arabi á tímabilinu en liðið er í sjöunda sæti deildarinnar, af tólf liðum, með 4 stig eftir fyrstu fjóra leiki sína.

Heimir Hallgrímsson er þjálfari liðsins og þá er Freyr Alexandersson, aðstoðarþjálfari karlalandsliðsins, á leið til félagsins þar sem hann mun aðstoða Heimi.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert