Spila innanhúss í fyrsta sinn í sænsku deildinni

Tele2 Arena í Stokkhólmi er mikið mannvirki og hægt að …
Tele2 Arena í Stokkhólmi er mikið mannvirki og hægt að draga þak yfir völlinn, eins og gert verður í kvöld.

Stórleikur Djurgården og Malmö í sænsku úrvalsdeildinni í knattspyrnu í kvöld fer ekki fram undir beru lofti. Eigendur Tele2 Arena, leikvangsins þar sem Djurgården spilar heimaleiki sína, tilkynntu í dag að þeir yrðu að draga þakið yfir leikvanginn fyrir leikinn.

Þetta verður í fyrsta sinn sem gripið er til þessa ráðs í deildinni en framkvæmdastjóri leikvangsins segir á heimasíðunni Djurgården að þar sem hitastig í Stokkhólmi eigi að fara undir tvær gráður í kvöld verði að renna þakinu yfir hann strax í dag. Annars sé tæknibúnaður þess í hættu.

Djurgården hefur ávallt spilað heimaleiki sína á vellinum undir beru lofti. „Það hefur alltaf verið okkar markmið að spila þannig en þetta er ekki í okkar höndum," segir Tomas af Geijerstam, atburðastjóri félagsins, á heimasíðunni.

Þetta fellur Malmömönnum ekki í geð, allavega ef marka má viðbrögð á Twittersíðu félagsins þar sem putta er beint niður í lok tilkynningar um þessi tíðindi.

Arnór Ingvi Traustason og félagar í Malmö mæta til leiks í Stokkhólmi með átta stiga forystu í deildinni og gætu aukið hana í allt að ellefu stigum með sigri í kvöld. Djurgården, sem er ríkjandi meistari, er í sjöunda sæti, fjórtán stigum á eftir gestum kvöldsins.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert