Penninn á lofti í Barcelona

Gerard Piqué, Frenkie De Jong og Clément Lenglet hafa allir …
Gerard Piqué, Frenkie De Jong og Clément Lenglet hafa allir skrifað undir nýjan samning við Barcelona. AFP

Fjórir leikmenn knattspyrnuliðs Barcelona á Spáni hafa framlengt samninga sína við félagið en þetta kom fram á samfélagsmiðlum Bacelona í kvöld.

Gerard Piqué, 33 ára, hefur skrifað undir nýjan fjögurra ára samning við Barcelona sem gildir til sumarsins 2024 en hann á að baki 548 leiki fyrir félagið.

Markvörðurinn Marc-André ter Stegen, 28 ára, hefur skrifað undir nýjan fimm ára samning en hann kom til félagsins frá Borussia Mönchengladbach árið 2014.

Þá skrifuðu þeir Clément Lenglet, 25 ára, og Frenkie de Jong, 23 ára, báðir undir nýjan sex ára samning sem gildir til ársins 2026. 

Þeir eru allir lykilmenn í liði Barcelona og hafa farið vel af stað undir stjórn Ronalds Koemans sem tók við stjórnartaumunum hjá félaginu í sumar.

mbl.is