Sérstakt að vinna án stuðningsmannanna

Ole Gunnar Solskjær í París í kvöld.
Ole Gunnar Solskjær í París í kvöld. AFP

Ole Gunnar Solskjær, knattspyrnustjóri Manchester United, var að vonum sáttur eftir 2:1-sigur liðsins gegn PSG í H-riðli Meistaradeildarinnar í knattspyrnu á Parc Des Princes í París í Frakklandi.

Marcus Rashford skoraði sigurmark leiksins á 87. mínútu með frábæru skoti og United byrjar því Meistaradeildina á sigri á erfiðum útivelli.

„Þetta er ekki sama tilfinning og þegar við unnum hérna síðast í keppninni þar sem keppnin var bara að hefjast,“ sagði Solskjær í samtali við BT sport.

„Engu að síður þá erum við virkilega sáttir með sigurinn á mjög svo erfiðum útivelli gegn frábæru liði. Það er sérstakt að vinna svona sterkt lið án stuðningsmannanna en mér fannst við eiga sigurinn skilinn.

Gegn liði eins og PSG er mikilvægt að verjast vel og loka öllum svæðum. Við gerðum það og mér fannst Alex Tuanzebe standa sig frábærlega og hann sýndi hversu megnugur hann er eftir langa fjarveru vegna meiðsla.

Bruno steig upp, þrátt fyrir að hafa brennt af tveimur vítaspyrnum, og var hvergi banginn. Við þurfum 10 stig til þess að komast upp úr riðlinum sem við ætlum okkur að sjálfsögðu að gera,“ bætti Solskjær við.

mbl.is