City kom til baka - stórsigur meistaranna

Sergio Agüero fagnar marki sínu í kvöld.
Sergio Agüero fagnar marki sínu í kvöld. AFP

Manchester City lenti undir snemma leik þegar liðið fékk Porto í heimsókn í C-riðli Meistaradeildar Evrópu í knattspyrnu á Etihad-völlinn í  Manchester í kvöld.

Leiknum lauk með 3:1-sigri City en það var Luis Díaz sem kom Porto yfir á 19. mínútu.

Sergio Agüero jafnaði metin, sex mínútum síðar, og Ilkay Gündogan og Ferrán Torres bætti við sitt hvoru markinu til viðbótar og City fagnaði sigri.

Þá reyndist Ahmed Hassan hetja Olympiacos þegar liðið fékk Marseille í heimsókn í Grikklandi en hann skoraði sigurmark leiksins undir restina í 1:0-sigri gríska liðsins.

Ögmundur Kristinsson var ekki í leikmannahóp Olympiacos sem er með 3 stig í C-riðlinum líkt og Manchester City en Porto og Marseille eru án stiga.

Kingsley Coman var á skotskónum í kvöld.
Kingsley Coman var á skotskónum í kvöld. AFP

Kingsley Coman skoraði tvívegis fyrir Evrópumeistara Bayern München þegar liðið burstaði Atlético Madrid í Þýskalandi í A-riðli keppninnar.

Leiknum lauk með 4:0-sigri Bæjara en Coman og Leon Goretzka skoruðu fyrir Bayern í fyrri hálfleik.

Corentin Tolisso og Coman bættu svo við sitt hvoru markinu í síðari hálfleik og þar við sat.

Bayern er með 3 stig á toppi riðilsins, Salzburg og Lokomotiv Moskva með 1 stig hvort, og Atlético Madrid er án stiga.

Romelu Lukaku fagnar jöfnunarmarki sínu gegn Borussia Mönchengladbach.
Romelu Lukaku fagnar jöfnunarmarki sínu gegn Borussia Mönchengladbach. AFP

Tvö mörk Romelu Lukaku dugðu ekki til sigurs þegar Inter Mílanó fékk Borussia Mönchengladbach í heimsókn í B-riðlinum á Ítalíu.

Lukaku kom Inter yfir í upphafi síðari hálfleiks en Ramy Bensebaini jafnaði metin á 63. mínútu.

Jonas Hofmann kom Gladbach yfir á 84. mínútu en Lukaku jafnaði metin fyrir Inter í  uppbótartíma.

Shakhtar Donetsk er á toppi riðilsins með 3 stig, Inter og Gladbach eru með 1 stig, og Real Madrid er án stiga.

Mikael Anderson kom inn á sem varamaður gegn Atalanta.
Mikael Anderson kom inn á sem varamaður gegn Atalanta. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Mikael Anderson byrjaði á varamannabekk Midtjylland þegar liðið fékk Atalanta í heimsókn í D-riðlinum í Danmörku.

Atalanta vann 4:0-sigur þar sem þeir Duván Zapata, Alejandro Gómez, Luis Muriel og Aleksey Miranchuk skoruðu mörk ítalska liðsins.

Mikael kom inn á sem varamaður á 87. mínútu í stöðunni 4:0 en Atalanta og Liverpool eru með 3 stig í riðlinum á meðan Midtjylland og Ajax eru án stiga.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert