Jón Daði hughreystir drenginn sem varð fyrir einelti

Jón Daði Böðvarsson og Toby Alderweireld í leik Íslands og …
Jón Daði Böðvarsson og Toby Alderweireld í leik Íslands og Belgíu. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Hæ Ólíver. Hvað segirðu félagi? Eru strákar sem eru með minnimáttarkennd að stríða þér og leggja þig í slæmt einelti? Láttu mig þekkja það vinur. Ég lenti nákvæmlega í því sama og þú á þínum aldri,“ skrifaði íslenski landsliðsmaðurinn Jón Daði Böðvarsson í athugasemd við facebookfærslu móður ungs drengs sem hefur orðið fyrir skelfilegu einelti í Garðabæ.

Sig­ríður Elín Ásmund­sótt­ir deildi frá grófu einelti sem sonur hennar varð fyrir í 6. bekk í Sjálandsskóla og hafa fjölmargir skrifað athugasemd við færsluna. Jón Daði var einn þeirra sem hughreystu unga drenginn.

„Ég var líka alltaf í boltanum. Þannig að það má segja að við séum kannski smá líkir. Þegar ég var á sama stað og þú hvað eineltið varðar, þá leið mér heldur ekki vel,“ skrifaði Jón Daði og hélt áfram:

„Ég var kallaður öllum illum nöfnum og alls konar ljótum athugasemdum var hreytt í mig. En ég minnti sjálfan mig á eitt. Strákarnir sem lögðu mig í einelti, þeim leið sjálfum illa. Sennilega verr en mér. Ég fókusaði bara á mig. Varð minn eigin keppinautur og vildi gera það besta sem ég gat gert úr mér og ekki pæla í því hvað öðrum finnst. Og veistu, meirihlutinn af þessum strákum sem lögðu mig í einelti eru ekkert merkilegir í dag og urðu að engu sjálfir.

Þú veist innst inni Ólíver að þú ert hæfileikaríkur og flottur gæi. Ég meina, mér finnst þú vera það og okkur öllum í landsliðinu. Og haltu áfram að æfa þig í boltanum og vera duglegur. Fyrir þig. Þinn félagi – Jón Daði Böðvarsson.“

mbl.is

Bloggað um fréttina