Erum ekki hérna til að þagga niður í þeim

Zinedine Zidane og Ronald Koeman á hliðarlínunni í gær.
Zinedine Zidane og Ronald Koeman á hliðarlínunni í gær. AFP

Zinedine Zidane, stjóri knattspyrnuliðsins Real Madríd, var að vonum sigurreifur eftir sigurinn gegn erkifjendunum í Barcelona í spænsku deildinni í gær, 3:1.

Frakkinn hefur þótt valtur í sessi undanfarið eftir slitrótta byrjun Real á tímabilinu og hefur meðal annars AS fjölmiðlasamsteypan skrifað mikið um að hann sé valtur í sessi hjá félaginu. Zidane sjálfur hafði þó engan áhuga á að svara gagnrýninni sem hann og lið hans hefur mátt þola undanfarið.

„Við komum ekki hingað til að þagga niður í þeim,“ sagði Zidane á blaðamannafundi sínum eftir leikinn. „Við höfum trú á því sem við erum að gera, við stöndum saman sem lið og höldum okkar striki. Ég er stoltur af liðinu.“

mbl.is