Enn eitt metið hjá Lewandowski

Robert Lewandowski fagnar þrennunni á laugardaginn.
Robert Lewandowski fagnar þrennunni á laugardaginn. AFP

Hinn 32 ára gamli Robert Lewandowski slær ekkert af í markaskorun og þótt hann hafi verið óstöðvandi undanfarin misseri þá er hann þegar búinn að setja eitt metið enn á nýbyrjuðu tímabili í þýska fótboltanum.

Lewandowski skoraði þrennu í 5:0-sigri Bayern München á Eintracht Frankfurt um helgina og þar með er hann markahæstur í þýsku 1. deildinni með 10 mörk. Hann er þegar kominn fjórum mörkum fram úr næsta manni sem er Andrej Kramaric hjá Hoffenheim, en hann hefur skorað sex mörk.

Aðeins fimm umferðir eru búnar og Lewandowski er sá fyrsti í sögu deildarinnar sem skorar tíu mörk í fyrstu fimm leikjunum.

Pólverjinn er að hefja sitt ellefta tímabil í deildinni og það sjöunda með Bayern en fyrstu fjögur árin lék hann með Borussia Dortmund. Fyrsta veturinn skoraði hann átta mörk en eftir það hafa mörkin minnst verið 17 og mest 34, á síðasta tímabili.

Lewandowski, sem í haust var kjörinn besti knattspyrnumaður Evrópu 2019-20 í árlegu kjöri UEFA og Samtaka evrópskra íþróttamiðla, skoraði samtals 55 mörk fyrir Bayern í öllum mótum á síðasta tímabili og varð þá markakóngur Meistaradeildarinnar með 15 mörk.

mbl.is