Hefur ekki kynnst öðru eins

Útlit er fyrir að Ísak Bergmann Jóhannesson muni hafa úr …
Útlit er fyrir að Ísak Bergmann Jóhannesson muni hafa úr tilboðum að velja frá stórliðum á einhverjum tímapunkti. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Frásagnir af áhuga stórliða í knattspyrnunni á Skagamanninum Ísak Bergmann Jóhannessyni eru ekki úr lausu lofti gripnar. Yfirnjósnari sænska liðsins Norrköping sem Ísak leikur með staðfesti það í dag. 

Tjáði hann Aftonbladet að ítölsku meistararnir í Juventus og ensku félögin Manchester United og Liverpool væru öll að fylgjast með Ísak. 

Yfirnjósnarinn Stig Torbjörnsen fór ekki fínt í yfirlýsingarnar og segist einfaldlega ekki hafa kynnst öðrum eins áhuga á leikmanni á sinum starfsferli. 

„Við vitum fyrir víst af áhuga þessara stórliða einfaldlega vegna þess að þau hafa sett sig í samband við okkur vegna þessa,“ sagði Torbjörnsen. 

„En þetta er ekki auðveld staða fyrir svo ungan leikmann. Þegar umtalið um hann verður mikið þá koma enn fleiri félög sem ekki vilja missa af lestinni,“ bætti hann við. 

Blaðið segist hafa heimildir fyrir því að Norrköping þurfi ekki nauðsynlega á skotsilfri að halda í augnablikinu og geti því leyft sér að bíða eftir virkilega góðu tilboði í Ísak sem einungis er 17 ára gamall en er orðinn einn umtalaðasti knattspyrnumaðurinn í Svíþjóð. 

mbl.is