Rashford gekk frá Leipzig

Paul Pogba tekur á móti boltanum í kvöld.
Paul Pogba tekur á móti boltanum í kvöld. AFP

Manchester United vann 5:0 stórsigur á RB Leipzig, toppliði Bundesligunnar, í H-riðli Meistaradeildar Evrópu í knattspyrnu í kvöld. Varamaðurinn Marcus Rashford átti magnaða innkomu og skoraði þrennu.

Manchester United byrjaði leikinn fjörlega og átti tvö hörkuskot snemma leiks. Fyrsta mark leiksins kom á 21. mínútu þegar Paul Pogba átti góða stungusendingu inn fyrir á Mason Greenwood sem kláraði vel framhjá Peter Gulacsi í marki RB Leipzig. Tærnar á Greenwood voru fyrir innan aftasta varnarmann RB Leipzig, Marcel Halstenberg, þegar sendingin kom en VAR dæmdi markið gott og gilt, 1:0.

RB Leipzig reyndi að skapa sér færi án árangurs þar sem vörn Manchester United stóð vaktina frábærlega. Fátt virtist benda til þess að úr yrði sú markaveisla sem raunin varð en framlag Marcus Rashford hafði þar mest að segja.

Hann kom inn á sem varamaður fyrir Greenwood á 63. mínútu og átti vægast sagt eftir að láta að sér kveða. Á 75. mínútu slapp hann inn fyrir eftir stungusendingu Bruno Fernandes, sem hafði komið inn á fyrir Donny van de Beek á 68. mínútu. Markið var upphaflega dæmt af vegna rangstöðu en VAR komst réttilega að þeirri niðurstöðu að Rashford hafi verið á eigin vallarhelmingi þegar sendingin kom. Manchester United því komið í 2:0.

Tveimur mínútum síðar bætti Rashford við öðru marki sínu. Þá missti varamaðurinn Marcel Sabitzer, sem kom inn á fyrir Benjamin Henrichs á 63. mínútu, boltann klaufalega rétt fyrir framan eigin vítateig eftir pressu frá Fred. Rashford náði boltanum, komst framhjá Dayot Upamecano og hamraði boltann í bláhornið og staðan því orðin 3:0.

Allar flóðgáttir voru nú opnar og Rashford var nálægt því að fullkomna þrennuna á 84. mínútu eftir frábæran einleik þar sem hann lék á þrjá leikmenn RB Leipzig en Ibrahima Konaté náði að komast fyrir skotið.

Á 86. mínútu átti Rashford stungusendingu inn á Martial sem var kominn einn gegn markmanni þegar Sabitzer klippti hann niður með glæfralegri rennitæklingu. Rashford fékk ekki tækifæri til að fullkomna þrennuna af vítapunktinum en þess í stað fór Martial sjálfur á punktinn og skoraði. Gulacsi var í boltanum en inn fór hann og staðan orðin 4:0.

Á annarri mínútu í uppbótartíma tókst Rashford loks að fullkomna þrennuna. Þá lék Martial inn í teiginn, fann þar Rashford einan á auðum sjó. Hann þakkaði pent fyrir sig með því að skora með öðru þrumuskoti framhjá Gulacsi og rak þar með síðasta naglann í kistu RB Leipzig, 5:0.

Magnaður stórsigur Manchester United því staðreynd og liðið tyllir sér þar með á topp H-riðls með fullt hús stiga, 6 stig eftir tvo leiki. RB Leipzig er hins vegar í þriðja sæti riðilsins með þrjú stig.

Lýsing uppfærist sjálfkrafa

Allar lýsingar í beinni

Man. Utd 5:0 Leipzig opna loka
93. mín. Leik lokið Leiknum lýkur með mögnuðum 5:0 sigri Manchester United. Topplið þýsku Bundesligunnar var kjöldregið í kvöld og þar ber hæst framlag Marcus Rashford, sem kom inn á í stöðunni 1:0 á 63. mínútu og gerði sér lítið fyrir og skoraði þrennu!
mbl.is