Stjórinn vildi að ég keyrði upp hraðann

Marcus Rashford skorar á Old Trafford í kvöld.
Marcus Rashford skorar á Old Trafford í kvöld. AFP

Marcus Rashford var að vonum ánægður eftir að hann skoraði þrennu í frábærum 5:0 sigri gegn RB Leipzig í H-riðli Meistaradeild Evrópu í knattspyrnu í kvöld. Þrenna Rashford var ekki síst mögnuð fyrir þær sakir að hann kom inn á á 63. mínútu leiksins í stöðunni 1:0.

Rashford var hógvær í viðtali við BT Sport eftir leik: „Ég held að stjórinn hafi viljað að ég myndi keyra upp hraðann. Fyrir okkur þýðir það einfaldlega að þyngja sóknina. Það voru svæði að opnast hjá þeim og við náðum að koma Bruno [Fernandes] og Paul [Pogba] mikið í boltann. Við vorum hættulegir allan leikinn og mér fannst sem við værum líklegir til að skora í hvert skipti sem við sóttum.“

„Þetta var alvöru liðsframmistaða. Þeir sem byrjuðu leikinn stóðu sig vel og þeir sem komu inn á sömuleiðis. Við getum ekki beðið um mikið meira en það hvað varðar hugarfar og vilja til þess að drepa leikinn. Þetta virkaði hjá okkur í kvöld,“ bætti hann við.

Rashford átti einnig þátt í fjórða marki liðsins þegar hann sendi inn fyrir á Anthony Martial sem endaði með því að Martial fékk víti. Rashford var þá búinn að skora tvö mörk og hefði því getað fullkomnað þrennuna fyrr í leiknum með því að skora úr vítinu. Martial tók þó vítið sjálfur og skoraði. „Við ræddum aðeins hver ætti að taka vítið. Ég treysti mér til að taka vítin og ég treysti Anthony til þess sömuleiðis. Þannig að það var ekkert vandamál.“

Rashford hrósaði að lokum Mason Greenwood, hinum 19 ára gamla framherja Manchester United, sem skoraði fyrsta mark leiksins og fór af velli fyrir Rashford. „Frammistaða hans kom mér ekki á óvart. Hann er topp leikmaður. Hann þarf að halda sér niðri á jörðinni og halda áfram að leggja hart að sér. Hann mun verða að ótrúlegum leikmanni hjá okkur.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert