United hefur ekki gefist upp

Dayot Upamecano er eftirsóttur af stærstu liðum Evrópu.
Dayot Upamecano er eftirsóttur af stærstu liðum Evrópu. AFP

Enska knattspyrnufélagið Manchester United ætlar sér að kaupa franska varnarmanninn Dayot Upamecano næsta sumar þegar félagsskiptaglugginn verður opnaður en það er Times sem greinir frá þessu.

Miðvörðurinn öflugi, sem er 22 ára gamall, var sterklega orðaður við brottför frá félagsliði sínu RB Leipzig í sumar en Manchester United reyndi að fá hann á Old Trafford.

Leipzig hafði hins vegar lítinn áhuga á að selja leikmanninn eftir að hafa misst Timo Werner til Chelsea og hafnaði öllum tilboðum í varnarmanninn.

Upamecano gekk til liðs við RB Leipzig frá Salzburg árið 2017 og hefur verið algjör lykilmaður hjá félaginu síðan en hann á að baki þrjá landsleiki fyrir Frakka.

Hann er samningsbundinn Leipzig til sumarsins 2023 en gæti verið falur næsta sumar fyrir 55 milljónir punda.

mbl.is