Ég er þjálfari, ekki fyrirsæta

Julian Nagelsmann á hliðarlínunni á Old Trafford á miðvikudaginn síðasta.
Julian Nagelsmann á hliðarlínunni á Old Trafford á miðvikudaginn síðasta. AFP

Julian Nagelsman, þjálfari þýska knattspyrnufélagsins RB Leipzig, vakti mikla athygli fyrir klæðaburð sinn í Meistaradeildinni í vikunni þegar lið hans heimsótti Manchester United á Old Trafford.

Leiknum lauk með 5:0-sigri United en það var Marcus Rashford, framherji United, sem stal fyrirsögnunum eftir leik, en Rashford skoraði þrennu í síðari hálfleik.

Nagelsmann er einungis 33 ára gamall en þrátt fyrir ungan aldur hefur hann nú þegar stýrt Hoffenheim frá 2016 til 2019 og nú Leipzig.

Þjálfarinn ungi var spurður út í klæðaburð sinn gegn United eftir leikinn á miðvikudaginn en vildi lítið tjá sig.

„Ég er ekki hrifinn af því að það sé talað svona mikið um fötin mín,“ sagði Nagelsmann á blaðamannafundi eftir leik.

„Ég geng í því sem mig langar að ganga í.

Ég er knattspyrnuþjálfari, ekki fyrirsæta,“ bætti Þjóðverjinn við.

mbl.is