Sara og Berglind skoruðu í öðrum leiknum í röð

Sara Björk Gunnarsdóttir í leik með Lyon.
Sara Björk Gunnarsdóttir í leik með Lyon. AFP

Sara Björk Gunnarsdóttir landsliðsfyrirliði skoraði fyrir Evrópumeistara Lyon í öðrum leiknum í röð í frönsku 1. deildinni í knattspyrnu í kvöld.

Sara skoraði fjórða mark Lyon í sannfærandi útisigri á Montpellier en lokatölur urðu 5:0. Markið kom á 72. mínútu og henni var skipt af velli þremur mínútum síðar.

Dzsenifer Marozsán, Amandine Henry, Eugéne Le Sommer og Kadeshia Buchanan skoruðu hin fjögur mörk Lyon í leiknum.

Liðið er með fullt hús stiga eftir sjö leiki, 21 stig, og er fimm stigum á undan aðalkeppinautnum, París SG, sem er með 16 stig en á leik til góða. Montpellier hafði byrjað tímabilið vel en mætti ofjörlum sínum í kvöld og er með 13 stig í þriðja sætinu.

Berglind skoraði í tapleik

Fyrr í dag máttu Berglind Björg Þorvaldsdóttir og Anna Björk Kristjánsdóttir þola ósigur með Le Havre gegn Guingamp á útivelli, 2:1. Þær spiluðu báðar allan leikinn og Berglind skoraði mark liðsins, hefur þar með líka skorað í tveimur leikjum í röð en þetta var hennar þriðja mark á tímabilinu. Le Havre er nú neðst í deildinni með fjögur stig úr fyrstu sjö leikjunum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert