Misstu toppsætið í slag stórveldanna

Sara Björk Gunnarsdóttir í leik með Lyon.
Sara Björk Gunnarsdóttir í leik með Lyon. AFP

Sara Björk Gunnarsdóttir og stöllur í Lyon töpuðu í uppgjöri stórveldanna í frönsku 1. deildinni í knattspyrnu í kvöld. PSG vann 1:0-sigur á Lyon í París og hirti þar með toppsætið í leiðinni. Þetta var fyrsta deildartap Lyon síðan 12. desember 2016.

Íslenski landsliðsfyrirliðinn hóf kvöldið á varamannabekknum en hún kom inn á 69. mínútu, þá var staðan orðin 1:0 en sigurmarkið skoraði Marie-Antoinette Katoto strax á 10. mínútu leiksins. PSG er á toppnum með 25 stig en ríkjandi meistarar Lyon koma þar næstir með 24 stig eftir níu umferðir.

mbl.is