Varnarmaðurinn varði úrslitavítaspyrnu frá Guðmundi

Guðmundur Þórarinsson
Guðmundur Þórarinsson Ljósmynd/New York City

New York City tapaði fyrir Orlando City í vítaspyrnukeppni í fjórðungsúrslitum Austurdeildar MLS í knattspyrnu í Bandaríkjunum og er því úr leik.

Guðmundur Þórarinsson leikur með liðinu en staðan var jöfn eftir venjulegan leiktíma, 1:1, og þurfti að grípa til framlengingar. Ekkert var heldur skorað þá en Selfyssingurinn kom inn sem varamaður á 115. mínútu.

Grípa þurfti til vítaspyrnukeppni en þar hafði Orlando betur, 6:5, en Guðmundur klikkaði úr síðustu spyrnu sinna manna.

Vítaspyrnukeppnin var einstaklega söguleg því í fjórðu umferð keppninnar fékk Pedro Gallese markvörður Orlando gula spjaldið fyrir að fara of snemma af marklínunni.  Hann hafði áður fengið gula spjaldið í leiknum og var því rekinn af velli.

Varnarmaðurinn Rodrigo Schlegel þurfti því að fara í mark Orlando og hann varð hetja liðsins með því að verja frá Guðmundi Þórarinssyni og tryggja liði sínu sæti í undanúrslitum Austurdeildarinnar.

mbl.is