Vill vera áfram í Kaupmannahöfn

Ragnar Sigurðsson vill vera áfram í herbúðum FC Kaupmannahafnar.
Ragnar Sigurðsson vill vera áfram í herbúðum FC Kaupmannahafnar. Ljósmynd/Szilvia Micheller

Ragnar Sigurðsson landsliðsmaður í knattspyrnu hefur áhuga á að vera áfram í herbúðum FC Kaupmannahafnar en samningur hans við félagið rennur út í sumar.

Miðvörðurinn lék fyrst með FCK frá 2011 til 2014 og kom aftur til félagsins í byrjun árs. Ragnar hefur hins vegar ekki komist almennilega af stað og aðeins leikið fimm leiki í dönsku úrvalsdeildinni og fjóra í Evrópudeildinni.

„Þetta er búið að vera erfitt síðan ég kom,“ viðurkenndi Ragnar við Bold. „Ég vil komast aftur af stað og spila einhverja leiki en auðvitað hef ég áhuga á að vera áfram hérna. Þetta er smá flókið því ég á rússneska konu en mér hefur alltaf liðið vel í Kaupmannahöfn. Við sjáum til hvað félagið gerir,“ sagði Ragnar.

mbl.is