Framtíðin er björt

Helgi Kolviðsson ásamt Heimi Hallgrímssyni þegar Helgi var aðstoðarþjálfari íslenska …
Helgi Kolviðsson ásamt Heimi Hallgrímssyni þegar Helgi var aðstoðarþjálfari íslenska landsliðsins í knattspyrnu. Eggert Jóhannesson

Helgi Kolviðsson, fráfarandi landsliðsþjálfari Liechtenstein í knattspyrnu karla, hefur sent samstarfsfólki sínu og liechtensteinsku þjóðinni fallega kveðju eftir tveggja ára starf.

„Lífið snýst um að takast á við nýjar áskoranir. Mig langar að þakka þjálfarateymi mínu, leikmönnum, fólkinu í Liechtenstein og knattspyrnusambandi Liechtenstein, fyrir tvö frábær ár. Það var afar ánægjulegt að vinna með ykkur, sérstaklega á svona erfiðum tímum eins og eru nú. Það var erfitt að safna stigum í undankeppninni árið 2019 og árið 2020 voru það aðeins sex leikir með tvo sigra, tvö jafntefli og tvö töp. En við megum öll vera stolt af afrekum okkar,“ sagði Helgi á Facebook-síðu sinni.

„Við misstum ellefu leikmenn vegna Covid-19 en á sama tíma gáfum við ungum leikmönnum tækifæri, þar sem níu leikmenn spiluðu sinn fyrsta leik fyrir landsliðið. Framtíð Liechtenstein er björt og ég óska liðinu og allri þjóðinni alls hins besta í framtíðinni,“ sagði hann að lokum.

Liechtenstein vann í haust tvo leiki í röð og er það í fyrsta skipti í sögu landsliðsins sem það gerist.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert