Zlatan skorar og skorar

Zlatan Ibrahimovic skorar annað mark sitt í leiknum í gærkvöldi.
Zlatan Ibrahimovic skorar annað mark sitt í leiknum í gærkvöldi. AFP

Sænski framherjinn Zlatan Ibrahimovic skoraði tvennu þegar AC Milan sigraði Napoli 3:1 á útivelli í gærkvöldi í ítölsku A-deildinni í knattspyrnu. Zlatan, sem er 39 ára gamall, er þar með kominn með 10 mörk í aðeins sex deildarleikjum á tímabilinu.

Zlatan kom AC Milan yfir á 20. mínútu leiksins og tvöfaldaði svo forskotið á 54. mínútu.

Belgíski framherjinn Dries Mertens minnkaði muninn í 2:1 á 63. mínútu en aðeins tveimur mínútum síðar fékk Tiemoue Bakayoko, miðjumaður Napoli og fyrrverandi leikmaður AC Milan, sitt annað gula spjald og þar með rautt.

Þar með þyngdist róður Napoli-manna talsvert og gerði AC Milan út um leikinn á fimmtu mínútu uppbótartíma, þegar Norðmaðurinn ungi, Jens Petter Hauge, skoraði sitt fyrsta deildarmark fyrir ítalska stórveldið.

Dagurinn reyndist sérlega góður fyrir Hauge því eftir leik var það ljóst að hann væri norskur meistari með Bodø/Glimt, en hann skoraði 14 mörk í 18 leikjum áður en AC Milan keypti hann í október síðastliðnum.

AC Milan er eftir sigurinn á toppi ítölsku A-deildarinnar með 20 stig að átta umferðum loknum, tveimur stigum á undan Sassuolo í öðru sætinu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert