Sara Björk á leið til Ítalíu

Sara Björk Gunnarsdóttir fagnar marki sínu í úrslitaleik Meistaradeildarinnar í …
Sara Björk Gunnarsdóttir fagnar marki sínu í úrslitaleik Meistaradeildarinnar í haust ásamt liðsfélögum sínum. AFP

Sara Björk Gunnarsdóttir og liðsfélagar hennar í Evrópumeistaraliði Lyon mæta ítalska stórliðinu Juventus í 32-liða úrslitum Meistaradeildar kvenna í knattspyrnu en dregið var til umferðarinnar í höfuðstöðvum UEFA í Nyon í Sviss í dag.

Sara Björk skoraði þriðja mark Lyon í 3:1-sigri liðsins gegn Wolfsburg í úrslitaleik keppninnar á síðustu leiktíð sem fram fór á San Sebastián-vellinum á Spáni 30. ágúst.

Lyon hefur unnið Meistaradeildina undanfarin fimm ár en Juventus, sem er með fullt hús stiga eftir fyrstu átta leiki sína í ítölsku A-deildinni, hefur aldrei fagnað sigri í keppninni, enda nýkomið fram á sjónarsviðið með kvennalið.

Glódís Perla Viggósdóttir og liðsfélagar hennar í sænska liðinu Rosengård mæta Lanchkhuti frá Georgíu og Ingibjörg Sigurðardóttir og liðsfélagar hennar í Vålerenga frá Noregi mæta Bröndby frá Danmörku í Norðurlandaslag.

Cloé Lacasse og portúgölsku meistararnir SL Benfica mæta svo Chelsea en viðureignirnar fara fram dagana 9. og 10. desember og 15. og 16. desember.

Glasgow City, sem sló Val út í 2. umferð undankeppninnar, dróst gegn Sparta Prag frá Tékklandi og á því ágæta möguleika á að komast í sextán liða úrslitin. Breiðablik sló Sparta Prag út í 32ja liða úrslitum keppninnar á síðasta ári.

mbl.is