Atalanta fór illa með gírlausa Liverpool-menn

Robin Gosens fagnar marki sínu á Anfield í kvöld.
Robin Gosens fagnar marki sínu á Anfield í kvöld. AFP

Liverpool tapaði sínum fyrsta leik á tímabilinu í Meistaradeild Evrópu í knattspyrnu gegn Atalanta á Anfield í Liverpool í D-riðli keppninnar í kvöld.

Leiknum lauk með 2:0-sigri Atalanta en bæði mörk leiksins komu í síðari hálfleik.

Atalanta byrjaði leikinn af miklum krafti og setti góða pressu á Liverpool-menn á fyrstu fimmtán mínútum leiksins. Liverpool tókst hins vegar að vinna sig inn í leikinn en það vantaði allt bit í sóknarleik Englandsmeistaranna og þeir sköpuðu sér varla marktækifæri allan fyrri hálfleikinn.

Josib Ilicic kom Atalanta yfir á 60. mínútu af stuttu færi úr teignum eftir frábæra sendingu Papu Gómez og Robin Gosens bætti við öðru marki Atalanta, fjórum mínútum síðar.

Gómez átti þá aftur frábæra sendingu frá vinstri, beint á kollinn á Hans Hateboer sem skallaði boltann niður í teiginn, beint fyrir fætur Gosens. Gosens gerði engin mistök, skoraði af stuttu færi, og staðan orðin 2:0.

Leikmenn Liverpool reyndu hvað þeir gátu að jafna metin en liðið náði aldrei að koma sér upp úr fyrsta gírnum, allan leikinn, og lokatölur því 2:0-fyrir Atalanta á Anfield.

Liverpool er sem fyrr í efsta sæti D-riðils með 9 stig en Ajax og Atalanta koma þar á eftir með 7 stig. Midtjylland rekur svo lestina án stiga á botni riðilsins.

Lýsing uppfærist sjálfkrafa

Allar lýsingar í beinni

Liverpool 0:2 Atalanta opna loka
90. mín. Leik lokið Leik lokið með 2:0-sigri Atalanta sem var einfaldlega mun sterkari aðilinn á Anfield í kvöld.
mbl.is