City tryggði sér sæti í 16 liða úrslitum

Phil Foden fagnar marki sínu í kvöld ásamt liðsfélögum.
Phil Foden fagnar marki sínu í kvöld ásamt liðsfélögum. AFP

Manchester City er búið að tryggja sér sæti í 16 liða úrslitum Meistaradeildar Evrópu í knattspyrnu karla. City hafði betur, 1:0, gegn Olympiacos í Grikklandi í kvöld og er því með fullt hús stiga, 12 stig, að fjórum umferðum loknum í C-riðlinum.

Eina mark leiksins skoraði Phil Foden á 36. mínútu eftir laglega hælsendingu Raheem Sterling.

Ögmundur Kristinsson var ekki í leikmannahópi Olympiacos í kvöld.

Mönchengladbach á toppnum

Borussia Mönchengladbach gerði sér lítið fyrir og vann annan stórsigur sinn gegn Shakhtar Donetsk í röð í B-riðlinum. Í kvöld vann Mönchengladbach 4:0 á heimavelli eftir að hafa unnið magnaðan 6:0 útisigur gegn sömu mótherjum í síðustu umferð.

Fyrsta markið kom á 17. mínútu þegar Lars Stindl skoraði úr vítaspyrnu. Á 34. mínútu lagði Stindl svo upp mark fyrir Nico Elvedi. Breel Embolo bætti við þriðja markinu í uppbótartíma fyrri hálfleiks og staðan því 3:0 í hálfleik.

Á 77. mínútu gerði Mönchengladbach endanlega út um leikinn þegar Oscar Wendt skoraði. Lokatölur því 4:0.

Með sigrinum heldur Mönchengladbach toppsætinu í riðlinum. Allt er enn í járnum í honum enda Shakhtar enn í 2. sæti þrátt fyrir töpin tvö og stórlið Real Madrid og Inter í 3. og 4. sæti. Inter fær einmitt Real Madrid í heimsókn í kvöld og fer þá annað liðið upp fyrir Shakhtar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert