Mikael og Midtjylland komast ekki áfram

Mikael Neville Anderson í baráttu við Rhys Williams hjá Liverpool …
Mikael Neville Anderson í baráttu við Rhys Williams hjá Liverpool í leik Liverpool og Midtjylland í síðasta mánuði. AFP

Ajax vann 3:1 sigur á Midtjylland í D-riðli Meistaradeildar Evrópu í knattspyrnu í kvöld. Landsliðsmaðurinn Mikael Neville Anderson kom inn á í liði Midtjylland á 69. mínútu leiksins.

Úrslitin þýða að Midtjylland er úr leik án stiga og á ekki möguleika á að ná þriðja sætinu sem gefur keppnisrétt í 32ja liða úrslitum Evrópudeildarinnar. Riðillinn er að öðru leyti opinn upp á gátt, þar sem Liverpool er með 9 stig í efsta sæti og bæði Ajax og Atalanta með 7 stig í 2. og 3. sæti.

Bayern vann riðilinn

Bayern München er búið að tryggja sér sigur í A-riðli Meistaradeildar Evrópu í knattspyrnu karla og þar með sæti í 16 liða úrslitum eftir 3:1 sigur gegn Salzburg í kvöld.

Í hinum leiknum í riðlinum gerði Atlético Madrid 0:0 jafntefli gegn Lokomotiv Moskvu.  Bayern er með fullt hús stiga á toppnum og Atlético Madrid í öðru sæti með 5 stig. Lokomotiv er með 3 stig í 3. sæti og Salzburg rekur lestina með 1 stig. Öll þrjú liðin eiga þó enn möguleika á að fylgja Bayern í 16 liða úrslitin.

Porto í góðri stöðu

Í C-riðlinum vann Porto góðan 2:0 sigur á útivelli gegn Marseille og er í 2. sæti með 9 stig. Fyrr í kvöld hafði Manchester City tryggt sig áfram í 16 liða úrslitin með 1:0 sigri gegn Olympiacos og eru með fullt hús stiga á toppnum.

Inter á botninum

Í B-riðlinum er allt í járnum eftir frábæran  2:0 útisigur Real Madrid gegn Inter Mílanó.

Fyrr í kvöld vann Borussia Mönchengladbach frábæran 4:0 sigur á Shakhtar Donetsk og hélt þar með efsta sæti riðilsins. Mönchengladbach er með 8 stig í efsta sæti, Real með 7 stig í öðru sæti, Shakhtar með 4 stig í þriðja sæti og Inter á botninum með aðeins 2 stig.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert